HEILSUEFLING

Öll börn ættu að alast upp við það að læra að virða heilsu sína og annarra sem ómetanleg verðmæti og grundvöll fyrir fullnægjandi lífsgæðum. „Lengi býr að fyrstu gerð“ segir máltækið og hafa rannsóknir sýnt að því fyrr sem við byrjum að móta hegðun og viðhorf barnanna okkar þeim mun meiri möguleika eiga þau á því að þróa með sér vitund um mikilvægi og ábyrgð á eigin heilsu. Það er jafnframt í okkar höndum að búa þeim umhverfi og þekkingu sem hvetur þau til heilsusamlegra ákvarðana er verða hluti af lífsstíl þeirra til framtíðar. Heilbrigð börn eru hamingjusöm og glöð og þeim líður vel.

„Heilbrigð sál í hraustum líkama“ eru einkunnarorð okkar og vinnum við markvisst að bættri líkamlegri, andlegri og félagslegri heilsu og velferð barnanna. Heilsuefling er höfð að leiðarljósi í einu og öllu í starfi heilsuleikskólanna okkar og auk þess að starfa í anda Heilsustefnunnar erum við þátttakendur í verkefninu „Heilsueflandi leikskóli“ í samvinnu við Embætti landlæknis.

Næring

Næring

Rannsóknir sýna að mataræði og næringarástand barna hefur áhrif á heilsu þeirra, þroska, vöxt og alhliða liðan. Því hafa Skólar ehf. sett sér metnaðarfulla Næringarstefnu (sjá hér) sem unnin var af næringarfræði og lýðheilsufræðingi fyrirtækisins í takti við opinberar ráðleggingar. Lögð er áhersla á að elda allan mat frá grunni og með fjölbreytni að leiðarljósi er passað upp á að ráðlögðum dagskammti (RDS) fyrir hvert og eitt vítamín og steinefni sé náð auk þess sem fjölbreytnin stuðlar um leið að heilbrigðum matarvenjum barnanna til framtíðar. Því fylgja allir skólarnar sameiginlegum 8 vikna matseðli þar sem hver dagur og hver vika er hugsuð sem næringarleg heild.

Megináhersla er lögð á að:

  • Borða hollan, fjölbreyttan, næringarríkan og rétt samsettan mat.
  • Auka grænmetis- og ávaxtaneyslu.
  • Efla heilsulæsi og þekkingu barnanna varðandi hollustu og óhollustu matar.
  • Stuðla að heilbrigðum matarvenjum barnanna til framtíðar.
Hreyfing

Hreyfing

Dagleg hreyfing er börnum nauðsynleg fyrir eðlilegan vöxt og þroska og gegnir lykilhlutverki þegar kemur að líkamlegri, andlegri og félagslegri vellíðan. Því leggjum við áherslu á skipulagðar hreyfistundir með fagstjóra að lágmarki einu sinni í viku þar sem sjónum er meðal annars beint að jafnvægi, samhæfingu, snerpu, þoli og þori. Markmiðið er að efla alhliða þroska barnsins, líkamsvitund og sjálfsmynd. Sjálfsöruggt og ánægt barn á auðveldara með að leika sér, tengjast öðrum og tileinka sér þekkingu.

Megináhersla er lögð á að:

  • Auka vitneskju um líkamann.
  • Styrkja sjálfsmynd og auka gleði.
  • Stuðla að betri líkamshreysti og aukinni hreyfifærni.
  • Auðvelda samskipti og efla félagsfærni.
Sköpun

Sköpun

Sköpun er mikilvægur þáttur í námi og þroska barna enda hafa þau mikla þörf fyrir að skapa og gera slíkt allar stundir í leik sínum. Lögð er áhersla á markvissa sköpun þar sem unnið er með fjölbreytt tjáningarform, s.s. tónlist, myndlist og leiklist, og beinist athyglin alltaf að ferlinu sjálfu, tjáningunni, gleðinni og því námi sem á sér stað þegar ímyndunarafl og hugmyndaflug barnanna fá að njóta sín. Markmiðið er að viðhalda og efla forvitni, sköpunargleði, sjálfstraust og ímyndunarafl barnanna.

Megináhersla er lögð á að:

  • Örva sköpunargleði og hugmyndaflug
  • Virkja og finna til gleði yfir eigin sköpunarkrafti
  • Kanna og handfjatla mismunandi efnivið
  • Skynja fegurð í umhverfinu
Leikurinn

Leikurinn

Leikurinn er hornsteinn og kjarni alls leikskólastarfs enda er hann meginnámsleið barna. Hann er sjálfsprottinn, kallar fram gleði, veitir vellíðan og eflir vitræna og skapandi þætti. Leikurinn, í allri sinni fjölbreytni, skapar börnum tækifæri til að skilja og læra á umhverfi sitt, tjá hugmyndir sínar, tilfinningar og reynslu og þróa félagsleg tengsl. Í leik taka börn þátt í lýðræðislegum athöfnum þegar þau setja fram eigin hugmyndir og þurfa jafnframt að virða sjónarmið annarra. Hann getur einnig virkjað sköpunarkraft barna og löngun þeirra til að læra og afla sér þekkingar auk þess sem hann kallar á hreyfingu, fjölbreytta notkun tungumálsins, tilfinningatengsl og félagsleg samskipti.

Hlutverk kennara/starfsfólks er að styðja við leik barna á margvíslegan hátt, virða og hlúa að honum, gefa honum rými og skipuleggja leikumhverfið. Mikilvægt er að börnum sé gefinn nægur tími, stuðningur og rými til að hreyfa sig, þróa leikinn og dýpka.

Heilsustefna

Öll börn ættu að alast upp við það að læra að virða heilsu sína og annarra sem ómetanleg verðmæti og grundvöll fyrir fullnægjandi lífsgæðum. „Lengi býr að fyrstu gerð“ segir máltækið og hafa rannsóknir sýnt að því fyrr sem við byrjum að móta hegðun og viðhorf barnanna okkar þeim mun meiri möguleika eiga þau á því að þróa með sér vitund um mikilvægi og ábyrgð á eigin heilsu. Það er jafnframt í okkar höndum að búa þeim umhverfi og þekkingu sem hvetur þau til heilsusamlegra ákvarðana er verða hluti af lífsstíl þeirra til framtíðar. Heilbrigð börn eru hamingjusöm og glöð og þeim líður vel.

„Heilbrigð sál í hraustum líkama“ eru einkunnarorð okkar og vinnum við markvisst að bættri líkamlegri, andlegri og félagslegri heilsu og velferð barnanna. Heilsuefling er höfð að leiðarljósi í einu og öllu í starfi heilsuleikskólanna okkar og auk þess að starfa í anda Heilsustefnunnar erum við þátttakendur í verkefninu „Heilsueflandi leikskóli“ í samvinnu við Embætti landlæknis.

Sjá nánar

HEILSUEFLANDI LEIKSKÓLI

Menntun er mikilvæg forsenda heilbrigðis en jafnframt er líkamlegt, andlegt og félagslegt heilbrigði og vellíðan mikilvæg forsenda náms og góðs námsárangurs. Í Aðalnámskrá leikskóla frá 2011 eru heilbrigði og velferð þess vegna skilgreind sem einn af sex grunnþáttum menntunar sem leikskólar eiga að hafa að leiðarljósi og innleiða í öllu sínu starfi. Aðrir grunnþættir eru læsi, sjálfbærni, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti og sköpun og tengjast þeir allir heilbrigði og vellíðan á einn eða annan hátt. Þessi áhersla Aðalnámskrár er í samræmi við áherslur laga um leikskóla nr. 90 frá 2008 þar sem segir meðal annars að veita skuli börnum umönnun og menntun, búa þeim hollt og hvetjandi uppeldisumhverfi og örugg náms- og leikskilyrði. Þar kemur einnig fram að það þurfi að rækta hæfileika barna til tjáningar og sköpunar í þeim tilgangi m.a. að styrkja sjálfsmynd þeirra, heilbrigðisvitund, öryggi og hæfni til mannlegra samskipta.

Uppruni verkefnisins

Upphaf þessa verkefnis, eins og Heilsustefnunnar, má rekja til verkefnisins European Network of Health Promoting Schools sem hófst árið 1992 og var samstarfsverkefni Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, Evrópuráðsins og Evrópusambandsins. Verkefnið miðaði að því að efla vitund og áhuga kennara, barna og ungmenna á heilsueflingu þar sem lögð er rík áhersla á samstarf við foreldra og nærsamfélagið. Talið var mikilvægt að börnum gæfist tækifæri til að vera í heilsueflandi skóla allt frá upphafi skólagöngu og því voru skólar á öllum skólastigum með í verkefninu. Hugmyndin um heilsueflandi skóla er byggð á Ottawa- sáttmála Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) um heilsueflingu þar sem horft er til stefnuviðmiða um heilsueflandi skóla, skólaumhverfisins, félagslegs umhverfis, heilsuvitundar barna og getu þeirra til breytinga, samfélagstengsla og heilbrigðisþjónustu.

Heilsueflandi leikskóli

Þróunarstarf Heilsueflandi leikskóla fer fram hjá Embætti landlæknis ásamt fulltrúum skólasamfélagsins.Verkefninu er ætlað að styðja skóla, kennara og starfsfólk til að vinna markvisst að heilsueflingu í sínu starfi og uppfylla þar með hlutverk sitt á sviði heilbrigðis og velferðar í samræmi við ákvæði Aðalnámskrár leikskóla. Efni handbókar Heilsueflandi leikskóla er helsti leiðarvísir þeirra leikskóla er hyggja á þátttöku í verkefninu. Í handbókinni eru upplýsingar um það sem heilsueflandi skólastarf felur í sér og atriði sem hyggja þarf að þegar skóli hefur ákveðið að starfa í anda heilsueflandi leikskóla. Sérstök áhersla er lögð á að vinna með átta lykilþætti heilsu sem tengjast skólastarfinu en þeir eru: hreyfing, mataræði, geðrækt, öryggi, tannheilsa, fjölskylda, nærsamfélag og starfsfólk. Gert er ráð fyrir að heilsueflandi leikskóli setji sér heildræna stefnu um heilsueflandi skólastarf, ásamt tímasettri aðgerðaáætlun, og að í skólanámskrá sé tekið mið af stefnunni.