Styrkir frá Erasmus+

Við erum afskaplega þakklát fyrir að hafa fengið úthlutað myndarlegum náms- og þjálfunarstyrkjum úr menntahluta Erasmus+ sem er mennta- og æskulýðsáætlun ESB.

Skólar ehf. fengu úthlutað góðum styrk vegna lýðheilsu- og forvarnarverkefnis sem snýr að því hvernig við getum greint áskoranir og nýtt markvissa hreyfiörvun sem snemmtæka íhlutun til að stuðla að bættum heila- og taugaþroska barna. Við erum í samstarfi við dr. Katalin Lakatos hjá BHRG rannsóknarstofnuninni í Búdapest en hún er mjög virtur fræðimaður á þessu sviði. Fulltrúar allra skólanna okkar munu taka þátt í þessu spennandi og þarfa verkefni.

Einn leikskólanna okkar, Heilsuleikskólinn Kór í Kópavogi, fékk jafnframt styrk til að þjálfa sitt fólk enn frekar með það fyrir augum að efla andlega, líkamlega og félagslega vellíðan barnanna.

Bæði þessi verkefni renna enn styrkari stoðum undir það heilsueflandi skólastarf sem við sinnum stolt og kristallast tilgangurinn í einkunnarorðum okkar „heilbrigð sál í hraustum líkama“.

Til baka