Skólar ehf. tilnefndir til Fjöreggsins 2015

Við erum afskaplega stolt af tilnefningu okkar til Fjöreggsins 2015 en verðlaunin eru veitt af Matvæla- og næringarfræðafélagi Íslands með stuðningi Samtaka iðnaðarins fyrir lofsvert framtak á matvæla- og/eða næringarsviði. Heilsuleikskólarnir okkar fimm starfa allir samkvæmt Heilsustefnunni, sem kennd er við Unni Stefánsdóttur, og hafa jafnframt tekið virkan þátt í þróun verkefnisins Heilsueflandi leikskóli undir forystu Embættis landlæknis. Við leggjum mikið upp úr hollu og fjölbreyttu fæði og erum tilnefnd fyrir Næringarstefnu Skóla ehf., sameiginlega 8 vikna matseðilinn okkar, uppskriftabankann og næringarútreikningana sem honum fylgja.

 

Aðrir sem hljóta tilnefningu í ár eru:

Búrið

Tilnefnt fyrir skemmtilega og nýstárlega nálgun á íslenska sælkeramarkaðinum. Búrið er í grunninn ostaverslun en hefur þróast út í að vera menningarmiðstöð fyrir ólíka strauma og stefnur í matvælaframleiðslu. Búrið hefur staðið fyrir vinsælum matarmörkuðum og rekur einnig ostaskólann.

Matur og drykkur

Veitingastaðurinn er tilnefndur fyrir að gera íslenska eldhúsinu hátt undir höfði. Hann byggir á gömlum íslenskum hefðum í matargerð með nútímalegri nálgun.

Móðir Jörð

Tilnefnt fyrir að framleiða spennandi íslensk matvæli úr jurtaríkinu. Fyrirtækið byggir framleiðslu sína á sjálfbærni og lífrænt ræktuðu hráefni. Lögð er mikil áhersla á að þróa afurðir úr nánasta umhverfi og hafa fjölmargar nýjungar komið frá Móður Jörð á síðustu árum.

Skaftafell Delicatessen

Tilnefnt fyrir að framleiða sælkeravörur úr kindakjöti úr Öræfum. Vörurnar eru framleiddar án aukefna. Kjötvörurnar sem Klaus Kretzer framleiðir hafa m.a. unnið til brons og silfurverðlauna í Norðurlandakeppni í matarhandverki.

Til baka