Heilsustefnan

Allir skólarnir okkar starfa samkvæmt Heilsustefnunni en upphaf hennar má rekja til þróunar- og samstarfsverkefnisins „European Network of Health Promoting Schools“ sem hófst sem samstarfsverkefni WHO (Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar), Evrópuráðsins og Evrópusambandsins árið 1992.  Frumkvöðull þessarar stefnu í leikskólastarfi á Íslandi var Unnur Stefánsdóttir (1951-2011).  Markmið Heilsustefnunnar er a) að auka gleði og vellíðan barnanna með áherslu á næringu, hreyfingu og sköpun í leik, b) að venja börn strax í barnæsku við heilbrigða lífshætti með það í huga að þeir verði hluti af lífsstíl þeirra til framtíðar. Áhersluþættir heilsuleikskóla geta verið mismunandi eftir leikskólum en holl og fjölbreytt næring, mikil og markviss hreyfing og sköpun skal ávallt vera aðalsmerki þeirra. 

Heilsubók barnsins

Heilsubók barnsins er gæðamatskvarði heilsuleikskóla og segir til um hvort settum markmiðum Heilsustefnunnar er náð. Í þá bók eru skráðar ýmsar upplýsingar um barnið svo sem hæð og þyngd, heilsufar, fjarvera vegna veikinda, næring og svefn, leikur, félagsleg færni/lífsleikni, gróf- og fínhreyfigeta og þróun myndsköpunar.

Heilsubók barnsins hefur að geyma útfærð skráningarblöð þar sem matsaðferðin felst í nákvæmri skráningu á þroska barns og færni. Skráningin gerir kennurum kleift að fylgjast með þroskaframvindu barnsins og er einnig tæki til að upplýsa foreldra um stöðu þess í leikskólanum. Skráningin fer fram tvisvar á ári, vor og haust, og veitir hún kennurum haldbæran grunn í foreldraviðtölum sem boðað er til í kjölfarið til að fara yfir niðurstöðurnar. Þessi leið gefur hlutlausa heildarsýn yfir stöðu barns í öllum þroskaþáttum. Heilsubók barnsins er í öllum tilfellum trúnaðarmál og eign barnsins.


Samtök heilsuleikskóla

Allir heilsuleikskólar Skóla ehf. eru aðilar að Samtökum heilsuleikskóla sem voru stofnuð í Kópavogi 4. nóvember 2005. Tilgangur samtakanna er að stuðla að heilsueflingu í leikskólasamfélaginu, gæta hagsmuna heilsuleikskóla, efla samheldni þeirra og skapa vettvang til fræðslu og skoðanaskipta. Í dag starfa 25 leikskólar, víðs vegar á landinu, samkvæmt Heilsustefnunni og rekum við fimm þeirra skóla. 

Nánari upplýsingar um Heilsustefnuna má nálgast á heimasíðu hennar www.heilsustefnan.is