Heilsueflandi leikskóli

Menntun er mikilvæg forsenda heilbrigðis en jafnframt er líkamlegt, andlegt og félagslegt heilbrigði og vellíðan mikilvæg forsenda náms og góðs námsárangurs. Í Aðalnámskrá leikskóla frá 2011 eru heilbrigði og velferð þess vegna skilgreind sem einn af sex grunnþáttum menntunar sem leikskólar eiga að hafa að leiðarljósi og innleiða í öllu sínu starfi. Aðrir grunnþættir eru læsi, sjálfbærni, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti og sköpun og tengjast þeir allir heilbrigði og vellíðan á einn eða annan hátt. Þessi áhersla Aðalnámskrár er í samræmi við áherslur laga um leikskóla nr. 90 frá 2008 þar sem segir meðal annars að veita skuli börnum umönnun og menntun, búa þeim hollt og hvetjandi uppeldisumhverfi og örugg náms- og leikskilyrði. Þar kemur einnig fram að það þurfi að rækta hæfileika barna til tjáningar og sköpunar í þeim tilgangi m.a. að styrkja sjálfsmynd þeirra, heilbrigðisvitund, öryggi og hæfni til mannlegra samskipta. 

Uppruni verkefnisins

Upphaf þessa verkefnis, eins og Heilsustefnunnar, má rekja til verkefnisins European Network of Health Promoting Schools sem hófst árið 1992 og var samstarfsverkefni Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, Evrópuráðsins og Evrópusambandsins. Verkefnið miðaði að því að efla vitund og áhuga kennara, barna og ungmenna á heilsueflingu þar sem lögð er rík áhersla á samstarf við foreldra og nærsamfélagið. Talið var mikilvægt að börnum gæfist tækifæri til að vera í heilsueflandi skóla allt frá upphafi skólagöngu og því voru skólar á öllum skólastigum með í verkefninu. Hugmyndin um heilsueflandi skóla er byggð á Ottawa-sáttmála Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) um heilsueflingu þar sem horft er til stefnuviðmiða um heilsueflandi skóla, skólaumhverfisins, félagslegs umhverfis, heilsuvitundar barna og getu þeirra til breytinga, samfélagstengsla og heilbrigðisþjónustu.


Heilsueflandi leikskóli


Þróunarstarf Heilsueflandi leikskóla fer fram hjá Embætti landlæknis ásamt fulltrúum skólasamfélagsins og hefur fagstjóri heilsuskóla Skóla ehf. átt sæti í þeim hópi. Verkefninu er ætlað að styðja skóla, kennara og starfsfólk til að vinna markvisst að heilsueflingu í sínu starfi og uppfylla þar með hlutverk sitt á sviði heilbrigðis og velferðar í samræmi við ákvæði Aðalnámskrár leikskóla. Efni handbókar Heilsueflandi leikskóla er helsti leiðarvísir þeirra leikskóla er hyggja á þátttöku í verkefninu. Í handbókinni eru upplýsingar um það sem heilsueflandi skólastarf felur í sér og atriði sem hyggja þarf að þegar skóli hefur ákveðið að starfa í anda heilsueflandi leikskóla. Sérstök áhersla er lögð á að vinna með átta lykilþætti heilsu sem tengjast skólastarfinu en þeir eru: hreyfing, mataræði, geðrækt, öryggi, tannheilsa, fjölskylda, nærsamfélag og starfsfólk. Gert er ráð fyrir að heilsueflandi leikskóli setji sér heildræna stefnu um heilsueflandi skólastarf, ásamt tímasettri aðgerðaáætlun, og að í skólanámskrá sé tekið mið af stefnunni.